Um mig

 Hver er ég?

Ég er klæðskiptingur sem innra með hefur kvenkyns sem og karlkyns kynvitund.

Mig langar ekki að skipta um kyn, því ég er kynflakkari eða það sem kallast á ensku transgendered, hugur minn er báðu megin ólíkt flestu fólki sem finnur sig innra með annaðhvort sem kvenkyns eða karlkyns. Svo er til fólk sem hefur kynvitund þvert á við sjálf kynið, og leitast við að leiðrétta það með aðgerðum.

Í raun get ég ekki skilgreint mig andlega- og tilfinningalega séð bara sem strák eða stelpu, í raun er ég bæði, og þar af leiðandi sækir kvenlega hliðin á mér í að ráða til jafns við þá karllægu, oft þó meira.
Því klæði ég mig upp, til að þessi hlið á mér fái að blómstra sýnilega stundum.

En í fullkomnum heimi þá myndi ég geta klætt mig eða hegðað eins og mér liði innra með.

Hver er ég? Ég gat ekkert endilega svarað þessari spurningu í mörg mörg ár. Allan minn unglingsaldur og fram á fullorðins þá vissi ég ekkert hvað var ,,að mér”. Ég fann amk fyrir einhverju og reyndi að höndla það ásamt því að vera unglingur, sem er nógu erfiður pakki einn og sér.
Út frá þessum tilfinningum fór ég að forvitnast, aðallega í fataskáp móður minnar því þarna sá ég föt sem tilheyrðu svo sannarlega ekki strákum, en kölluðu samt á mig. Þegar ég svo mátaði leið mér vel, eins og eitthvað innra með fengi smá frelsi.

En ég skammaðist mín fyrir þessar tilfinningar, faldi þær með öllum ráðum og leið illa andlega um leið og ég setti upp grímu fyrir fjölskyldu, ættingja og vini sem myndu alls ekki höndla að sonur þeirra, vinur eða frændi hefði gaman af því að klæðast kvenfötum.
Svo komu fullorðinsárin og áfram hélt þessi feluleikur áfram með tilheyrandi óvissu og skömm.

En þá gerðist eitthvað. Ég fór að finna fyrir sátt við þessa hlið á mér sem var allan tímann svona stór. Ég sá í sjálfri mér að innra með var ég kona sem og karlmaður. Út frá því læddist Linda um og fetaði sig smáum skrefum í átt að því að vera samþykktur hluti af mér sem persónu.
Ég valdi nafnið Linda til að aðskilja hana frá þeirri daglegu manneskju sem heimurinn sér venjulega, en í raun er Linda ekkert alter egó sem er pakkað niður í tösku með öllum kvenfötunum. Linda er ég og ég er Linda, og ég lifi og hugsa af stolti sem slík eða slíkur,, þú mátt velja ef þetta allt ruglar þig.