Allt eða ekkert.

Ég hef oft hugsað út í það hvernig fólk tekur mér sem klæðskiptingi, hvernig það myndi taka mér, ættingjar, vinir, vinnufélagar, fólk sem ég þekki ekki hætishót. Ég fyllist ekkert endilega bjartsýni yfir því, og hugsa meira um það hversu illa þau myndu taka því. En kannski mála ég skrattann á vegginn, vonandi. Hvað ef maður væri hommi í staðinn?

Þetta er allt fólk sem maður umgengst mismikið og stundum mislítið. En hvað með förunaut? Hvernig útskýrir maður líf sitt fyrir honum og hættir á að enda sambandið?

Ég hef lengi verið afar smeyk við að tengjast konu svo mikið að ég þurfi að deila slíku leyndarmáli sem Linda þarf því miður að vera. Hvernig veit ég nema hún bregðist ekki illa við og hverfi? Hvað ef hún heimtar hömlur eða málamiðlanir svo hún þurfi ekki að sjá Lindu eða hugsa um? Ég myndi aldrei vilja fela þetta líf mitt, það myndi bara skaða mig illa að innan. Ég læt heldur ekki hefta mig. Þessvegna hef ég hingað til forðast að fara út í neitt alvarlegt.

Ég tengdist þó einni konu, sem varð mín mistress, og ég þræll hennar. Hún átti mig, kenndi og nærði. En ég var ætíð óviss um það hvað henni fyndist í raun um mig sem Lindu. Var henni sama? Reyndi hún að leiða þetta hjá sér því hún vildi lítið af þessu vita?

En málið var að hún vissi vel hversu mikill partur af sálarlífinu þetta er hjá mér, partur sem var á endanum notaður gegn mér sem gulrót á stöng. Og stönginni var ekkert slakað.

Og þessa dagana forðast ég jafnvel að tengjast náið fólki sem veit nú þegar af þessari hlið minni, ég er eflaust að venjast því að vera ein á báti eftir að hafa verið svo háð andlega þeirri drottnandi konu sem átti mig. Ég er óörugg með sjálfa mig og álit fólks á mér.En, ég vil vera náin einhverri, deila með henni tíma og stað, verða hrifin og kannski finna ást aftur, hlæja með, kúra, fíflast í, deila með dýpstu leyndarmálum (hopeless romantic, I know), eiga æðislegt kinký kynlíf og BDSM.

En ekki ef hún vill ekkert af Lindu vita.